• Sálmur 9: Um flótta lærisveinanna

    Þá lærisveinarnir sáu þar
    sinn herra gripinn höndum
    og hann af fólki verstu var
    vægðarlaust reyrður böndum,
    allir senn honum flýðu frá,
    forlétu drottin hreinan
    í háska einan.
    Að svoddan skulum við, sál mín, gá.
    Sjáum hér lærdóm beinan.

    Án drottins ráða er aðstoð manns
    í öngu minnsta gildi.
    Fánýtt reynist oft fylgið hans,
    sem frekast hjálpa skyldi.
    Hver einn vill bjarga sjálfum sér,
    ef sýnist háskinn búinn
    að hendi snúinn.
    Far því varlega, að fallvölt er
    frænda og vina trúin.

    Í sama máta sér þú hér,
    sál mín, í spegli hreinum,
    að hryggilegar sé háttað þér
    en herrans lærisveinum.
    Þeir höfðu leyfi lausnarans
    lífi að forða sínu
    frá sárri pínu,
    nauðugir misstu návist hans.
    Nú gæt að ráði þínu.

    Hvað oft, Jesú, þér flúði eg frá
    frekt á mót vilja þínum,
    þá glæpaveginn gekk ég á,
    girndum fylgjandi mínum?
    Forskuldað hafði eg fyrir það
    flóttamaður að heita
    til heljar reita.
    En þú virtist mér aumum að
    aftur í miskunn leita.

    Einn varstu, Jesú, eftir því
    í óvina látinn höndum,
    einn svo ég væri aldrei í
    eymd og freistingum vöndum.
    Allir forlétu einan þig,
    allt svo mig hugga kynni
    í mannraun minni.
    Ég bið: Drottinn, lát aldrei mig
    einsamlan nokkru sinni.

    Lærisvein, sál mín, sjá þú þann,
    sem Jesú eftir fylgdi.
    Ranglát ungmenni ræntu hann,
    rétt nakinn við þá skildi.
    Bersnöggur flótti betri er
    en bræðralag óréttinda
    í selskap synda.
    Ávinning lát þig öngvan hér
    í þeirra flokki binda.

    Burt þaðan Jesúm færði fljótt
    flokkur illræðismanna.
    Lamb guðs saklaust, þá leið að nótt,
    leiddu þeir til kvalanna.
    Miskunnarlaus sú meðferð bráð
    mér virðist eftir vonum;
    í náttmyrkrunum
    þeir hafa bæði hrakt og hrjáð,
    hrundið og þrúgað honum.

    Í dauðans myrkrum ég, dæmdur þræll,
    dragast átti til pínu,
    en þú tókst, Jesú, son guðs sæll,
    saklaus við straffi mínu.
    Þanninn til bjóstu ljóssins leið
    ljómandi sálu minni,
    þó líf hér linni.
    Andlátskvölum og kaldri neyð
    kvíði eg því öngu sinni.

    Hröktu því svo og hrjáðu þig,
    herra minn, illskuþjóðir,
    hér svo nú bæru á höndum mig
    heilagir englar góðir.
    Mæðusöm urðu myrkrin þér,
    mæta létu þig hörðu
    og hindran gjörðu,
    guðs dýrðar ljós svo lýsi mér
    á lifandi manna jörðu.

    Kvalaför, Jesú, þessi þín,
    sem þá gekkstu einu sinni,
    veri kraftur og verndin mín,
    svo veginn lífsins ég finni.
    Lát ekki djöful draga mig
    í dofinleik holdsins blinda
    til sekta og synda.
    Ég bið af ást og alúð þig
    ákefð hans burt að hrinda.

    Amen