• Sálmur 5: Um komu Gyðinga i grasgarðinn

    Meðan Jesús það mæla var,
    mannfjöldi kom í garðinn þar,
    Júdas, sá herra sinn forréð,
    sveinar prestanna og stríðsfólk með,
    skriðbyttur báru, blys og sverð,
    búnir mjög út í þessa ferð.
    Um það ég framar þenkja verð.

    Verður það oft, þá varir minnst,
    voveifleg hætta búin finnst.
    Ein nótt er ei til enda trygg;
    að því á kvöldin, sál mín, hygg.
    Hvað helst sem kann að koma upp á,
    kjós Jesúm þér að vera hjá.
    Skelfing engin þig skaðar þá.

    En Júdas hafði áður sagt
    auðkenni þeim og svo við lagt:
    Hvern ég kyssi, handtakið þann,
    höndlið með gætni og bindið hann. –
    Varastu, sál mín, svik og prett,
    þó sýnast megi í hylming sett.
    Drottinn augljóst það dæmir rétt.

    En Jesús áður allt fornam,
    hvað átti við hann að koma fram.
    Því gekk hann sjálfur þeim á mót,
    þanninn ræddi með kærleikshót:
    Að hverjum leitið hingað þér? –
    Hópur illmennis aftur tér:
    Jesúm naðverska nefnum vér. –

    Ég er hann, sagði Jesús þá.
    Júdas sjálfur stóð flokknum hjá.
    Öflugt var drottins orðið það;
    allir til jarðar féllu í stað.
    Hvað hans óvini hrelldi mest,
    huggar nú mína sálu best.
    Í allri nauð það auglýsist.

    Þá ég fell eður hrasa hér,
    hæstur drottinn vill reiðast mér,
    þá segir Jesús: Eg em hann,
    sem endurleysti þann syndarann
    með mínu blóði og beiskri pín.
    Bræði, faðir kær, stilltu þín. –
    Eflaust er það afsökun mín.

    Djöfull, synd og samviskan ill
    sálu mína þá kvelja vill,
    eins segir Jesús: Eg em hann,
    sem afmá þína misgjörð vann,
    líka sem vindur léttfær ský
    langt feykir burt og sést ei því.
    Á mig trú þú, svo ertu frí. –

    Þegar mig særir sótt eða kvöl,
    sorgleg fátækt og heimsins böl,
    ég veit þú segir: Eg er hann,
    Jesús, sem lækna vill og kann.
    Auðlegð á himnum áttu víst;
    eymd þín og hryggð í fögnuð snýst.
    Heiminn sigraði eg, hræðstu síst. –

    Á dauðastund og dómsins tíð,
    drottinn, það skal mín huggun blíð,
    orð þitt er sama: Eg em hann,
    sem inn þig leiði í himnarann;
    þjón minn skal vera þar ég er. –
    Því hefur þú, Jesú, lofað mér.
    Glaður ég þá í friði fer.

    Ég segi á móti: Ég er hann,
    Jesú, sem þér af hjarta ann. –
    Orð þitt lát vera eins við mig:
    Elska ég, seg þú, líka þig. –
    Eilíft það samtal okkar sé
    uppbyrjað hér á jörðunni.
    Amen, ég bið, svo skyldi ske.

    Amen