• Sálmur 48: Um Jesú síðusár

    Að kveldi Júðar frá ég færi
    til fundar greitt við Pílatum
    og þess beiddu að ekki væri
    önduð lík á krossinum,
    því hátíðin var harla nærri.
    Hér svo ritning greinir um.

    Stríðsmönnum hann bauð að brjóta
    beinin þeirra, og svo var gjört.
    Heljarstund því hrepptu fljóta
    hinir tveir, sem greini eg bert,
    en Jesúm létu síns lífláts njóta,
    limina hans ei fengu snert.

    Stríðsmann einn með heiftar hóti
    harðlyndur gekk krossi að,
    í lausnarans síðu lagði spjóti,
    lagið nam í hjarta stað.
    Blóð og vatn þar frá ég út fljóti.
    Fyrir var áður spáð um það.

    Umhugað er einum drottni
    allra sinna barna lík.
    Í jörðu hér þó holdið rotni,
    huggun traust mig gleður slík,
    hann vill ei týnist bein né brotni.
    Blessuð sé sú elskan rík.

    Guð drottinn með gæsku ráði
    gjörði Adams síðu af
    fríða kvinnu fyrst á láði,
    fast hann þó á meðan svaf;
    vaknaður þess að vísu gáði
    og veglegt henni nafnið gaf.

    Sofnaður á sinni síðu
    sárið drottinn Jesús bar,
    svo af vatni og blóði hans blíðu
    byggðist heilög kristnin þar;
    náði hún eðla nafni fríðu,
    nær til himna stiginn var.

    Skoðaðu hverninn skírnin hreina
    skiljast nú með réttu á:
    Að vísu jafnan vatnið eina
    vor líkamleg augu sjá,
    en trúarsjónin, svo skal greina,
    sonar guðs blóð þar lítur hjá.

    Æ, hvað má ég sælan sanna
    sankti Tómas, postula þinn,
    þá síðu mátti hann sár þitt kanna,
    sína hönd þar lagði inn.
    Þú munt ei mér þjáðum banna
    það að skoða, Jesú minn.

    Allar Jesú æðar stóðu
    opnaðar í kvölinni.
    Dreyralækir dundu og flóðu
    um drottins líf og krossins tré.
    Nægð af lausnargjaldi góðu
    guðs son fyrir mig lét í té.

    En svo ég skyldi sjá og játa
    sanna elsku drottins míns,
    vildi hann ekki læstar láta
    lífsæðarnar hjarta síns.
    Því er, sál mín, mikil úr máta
    miskunnsemi lausnara þíns.

    Opnar dyr á arkar síðu
    inn um gengu skepnurnar,
    sem sjálfur drottinn bauð með blíðu
    bjargast skyldu inni þar
    fyrir vatnsins flóði stríðu.
    Frelsi og líf þeim gefið var.

    Lífsins dyr á síðu sinni
    setur Jesús opnar hér,
    svo angruð sála aðstoð finni,
    öll þá mannleg hjálpin þver.
    Hver sem hefur þar athvarf inni,
    frá eilífum dauða leystur er.

    Nói um sinn arkarglugga
    upp til himins litið fékk,
    haldinn dimmum hryggðarskugga,
    hátt þá vatnsins flóðið gekk,
    svo hann mátti um síðir hugga
    sólarljóma birtan þekk.

    Gegnum Jesú helgast hjarta
    í himininn upp ég líta má.
    Guðs míns ástar birtu bjarta
    bæði fæ ég að reyna og sjá.
    Hryggðarmyrkrið sorgar svarta
    sálu minni hverfur þá.

    Guðs var máttug mildin prúða,
    Móises þá steininn sló,
    út til allra Ísraels búða
    ágætt svalavatnið dró,
    hressti þyrsta, þjáða, lúða,
    þeim svo nýja krafta bjó.

    Þá sjálfur guð á sonarins hjarta,
    sínum reiðisprota slær,
    um heimsins áttar alla parta
    út rann svalalindin skær.
    Sálin við þann brunninn bjarta
    blessun og nýja krafta fær.

    Við þennan brunninn þyrstur dvel ég,
    þar mun ég nýja krafta fá.
    Í þessi inn mig fylgsnin fel ég,
    fargar engin sorg mér þá.
    Sælan mig fyrir trúna tel ég,
    hún tekur svo drottins benjum á.

    Hjartað mitt er, herrann góði,
    hryggilega saurgað mjög.
    Þvo þú það með þínu blóði.
    Þess af auðmýkt beiði ég.
    Vinni mér bót á mæðu og móði
    miskunnsemin guðdómleg.

    Hjartans innstu æðar mínar
    elski, lofi, prísi þig.
    En hjartablóð og benjar þínar
    blessi, hressi, græði mig.
    Hjartans þýðar þakkir fínar
    þér sé, gæskan eilíflig.

    Amen