• Sálmur 44: Það sjöunda orðið Kristí

    Hrópaði Jesús hátt í stað,
    holdsmegn og kraftur dvínar:
    Ég fel minn anda, frelsarinn kvað,
    faðir, í hendur þínar. –

    Þú, kristinn maður, þenk upp á
    þíns herra beiskan dauða;
    að orðum hans líka einninn gá,
    eru þau lækning nauða.

    Jesús haldinn í hæstri kvöl,
    hlaðinn með eymdir allar,
    dapurt þá að kom dauðans böl,
    drottin sinn föður kallar.

    Herrann vill kenna þar með þér,
    þín ef mannraunir freista,
    góðlyndur faðir guð þinn er,
    gjörir þú honum að treysta.

    Fyrir Jesúm þú fullvel mátt
    föður þinn drottin kalla.
    Enn þó þig krossinn þvingi þrátt,
    það mýkir hörmung alla.

    Eins og faðirinn aumkar sig
    yfir sitt barnið sjúka,
    svo vill guð einninn annast þig
    og að þér í miskunn hjúka.

    Einninn sýna þér orð hans klár
    ódauðleik sálarinnar.
    Þó kroppurinn verði kaldur nár,
    krenkist ei lífið hennar.

    Hvar hún finnur sinn hvíldarstað,
    herrann sýnir þér líka.
    Hönd guðs þíns föðurs heitir það,
    hugsa um ræðu slíka.

    Viljir þú eftir endað líf
    eigi þín sál þar heima,
    undir hönd drottins hér þá blíf,
    hans boðorð skaltu geyma.

    Láttu guðs hönd þig leiða hér,
    lífsreglu halt þá bestu:
    Blessuð hans orð sem boðast þér,
    í brjósti og hjarta festu.

    Hrittu ei frá þér herrans hönd,
    hún þó þig tyfta vildi;
    legg heldur bæði líf og önd
    ljúflega á drottins mildi.

    Hér þegar mannleg hjálpin dvín,
    holdið þó kveini og sýti,
    upp á hönd drottins augun þín
    ætíð með trúnni líti.

    Að morgni og kvöldi minnst þess vel,
    málsupptekt láttu þína:
    Af hjarta eg þér á hendur fel,
    herra guð, sálu mína.

    Svo máttu vera viss upp á,
    vilji þér dauðinn granda,
    sála þín mætir miskunn þá
    millum guðs föðurs handa.

    Hún finnur ekkert hryggðarstríð,
    hörmung né mæðu neina,
    í friði skoðar ætíð blíð
    ásjónu drottins hreina.

    Eftirtekt mér það einninn jók,
    er ég þess gæta kunni,
    andlátsbæn sína sjálfur tók
    son guðs af Davíðs munni.

    Bæn þína aldrei byggðu fast
    á brjóstvit náttúru þinnar.
    Í guðs orði skal hún grundvallast;
    það gefur styrk trúarinnar.

    Vér vitum ei hvers biðja ber,
    blindleikinn holds því veldur.
    Orð guðs sýnir þann sannleik þér.
    Sæll er sá þar við heldur.

    Vertu, guð faðir, faðir minn
    í frelsarans Jesú nafni.
    Hönd þín leiði mig út og inn,
    svo allri synd ég hafni.

    Höndin þín, drottinn, hlífi mér,
    þá heims ég aðstoð missi.
    En nær sem þú mig hirtir hér,
    hönd þína eg glaður kyssi.

    Dauðans stríð af þín heilög hönd
    hjálpi mér vel að þreyja.
    Meðtak þá, faðir, mína önd;
    mun ég svo glaður deyja.

    Minn Jesú, andlátsorðið þitt
    í mínu hjana eg geymi.
    Sé það og líka síðast mitt,
    þá sofna eg burt úr heimi.

    Amen