• Sálmur 43: Það sjötta orð Kristí á krossinum

    Eftir að þetta allt var skeð,
    edikið Jesús smakka réð,
    þrótt og lífskrafta þverra fann:
    Það er fullkomnað, sagði hann.

    Orð þíns herra með ást og trú
    athuga skyldir, sál mín, þú.
    Ef þeirra grundvöll sannan sér,
    sæta huggun þau gefa þér.

    Fyrst skaltu vita að guð út gaf
    greinilegt lögmál himnum af.
    Hann vill að skuli heimi í
    hver maður lifa eftir því.

    Algjört réttlæti ljóst og leynt,
    líkama, sál og geðið hreint,
    syndalaus orð og atvik með
    af oss lögmálið heimta réð.

    Hugurinn vor og hjartað sé
    í hreinni elsku rétt brennandi,
    fyrir utan hræsni, bræði og bann
    bæði við guð og náungann.

    Hver þetta gæti haldið rétt,
    honum var lífið fyrir sett,
    en ef í einu út af brá,
    eilíf fordæming við því lá.

    Enginn maður frá Adam fyrst,
    eftir þann tíma hann syndgaðist,
    fullnægju gat því gjört til sanns.
    Gengur það langt yfir eðli manns.

    Óbærileg varð allra sekt,
    eftir því drottinn gekk svo frekt,
    annaðhvort skyldi uppfyllt það
    eða mannkynið fortapað.

    Jesús eymd vora alla sá,
    ofan kom til vor jörðu á,
    hæðum himna upprunninn af,
    undir lögmálið sig hann gaf.

    Viljuglega í vorn stað gekk,
    var sú framkvæmdin guði þekk,
    föðurnum hlýðni fyrir oss galt,
    fullkomnaði svo lögmál allt.

    En svo að synda sektin skeð
    sannlega yrði forlíkt með
    og bölvan lögmálsins burtu máð,
    beiska kvöl leið og dauðans háð.

    Þá hann nú hafði allt upp fyllt,
    sem oss var sjálfum að gjöra skylt,
    og bæta öll vor brotin frí,
    berlega vildi hann lýsa því.

    Þess vegna herrann hrópa nam,
    hart nær á krossi stiginn fram,
    að oss í voru andláti
    öll hans verðskuldan huggun sé.

    Svoddan aðgættu, sála mín,
    sonur guðs hrópar nú til þín,
    hvað þér til frelsis þéna kann:
    Það er fullkomnað, segir hann.

    Fullkomnað lögmál fyrir þig er,
    fullkomnað gjald til lausnar þér,
    fullkomnað allt hvað fyrir var spáð;
    fullkomna skaltu eignast náð.

    Herra Jesú, ég þakka þér,
    þvílíka huggun gafstu mér;
    ófullkomleika allan minn
    umbætti guðdómskraftur þinn.

    Hjálpa þú mér, svo hjartað mitt
    hugsi jafnan um dæmið þitt
    og haldist hér í heimi nú
    við hreina samvisku og rétta trú.

    Upp á þessi þín orðin traust
    óhræddur dey ég kvíðalaust,
    því sú frelsis fullkomnan þín
    forlíkað hefur brotin mín.

    Amen