• Sálmur 40: Þriðja orð Kristí á krossinum

    Upp á ræningjans orð og bón
    ansaði guðs hinn kæri son:
    Þú skalt, sannlega segi eg þér,
    sæluvist hafa í dýrð hjá mér. –

    Sjáðu með gætni, sál mín kær,
    sönn iðrun hverju kraftað fær.
    Upp á það dæmið er hér rétt
    öllum til lærdóms fyrir sett.

    Reiði drottins þá upp egnd er
    yfir ranglæti mannsins hér,
    iðranin blíðkar aftur guð;
    ei verður syndin tilreiknuð.

    Þó komi höstug hefndin bráð,
    hrein iðran jafnan finnur náð.
    Mitt í standandi straffi því
    stillist guðs reiði upp á ný.

    Samvisku orma sárin verst
    sönn iðran jafnan græðir best,
    hugsvalar sál og huggar geð,
    heilaga engla gleður með.

    Bæn af iðrandi hjarta hýr,
    hún er fyrir guði metin dýr.
    Herrann Jesús á hverri tíð
    henni gaf jafnan andsvör blíð.

    Sem Móises með sínum staf
    sætt vatn dró forðum steini af,
    eins fær iðrandi andvarp heitt
    út af guðs hjarta miskunn leitt.

    Játning mín er sú, Jesú minn,
    ég er sem þessi spillvirkinn,
    já, öngu betri fyrir augsýn þín,
    ef þú vilt reikna brotin mín.

    Kem ég nú þínum krossi að,
    kannastu, Jesú minn, við það.
    Syndanna þunginn þjakar mér,
    þreyttur ég nú að mestu er.

    Alnakinn þig á einu tré,
    út þínar hendur breiðandi,
    sárin og blóðið signað þitt
    sér nú og skoðar hjartað mitt.

    Þar við huggar mín sála sig,
    svoddan allt leiðstu fyrir mig.
    Þíns hjartadreyra heilög lind
    hreinsar mig vel af allri synd.

    Krossins burt numinn kvölum frá
    kóngur ríkir þú himnum á.
    Herra, þá hér mig hrellir pín,
    hugsaðu í þinni dýrð til mín.

    Segðu hvern morgun svo við mig,
    sæti Jesú, þess beiði eg þig:
    Í dag þitt hold í heimi er,
    hjartað skal vera þó hjá mér.

    Í dag, hvern morgun eg svo bið,
    aldrei lát mig þig skiljast við.
    Sálin, hugur og hjartað mitt
    hugsi og stundi á ríkið þitt.

    Eins þá kemur mín andlátstíð,
    orðin lát mig þau heyra blíð:
    Í dag, seg þú, skal sálin þín
    sannlega koma í dýrð til mín.

    Herra minn, þú varst hulinn guð,
    þá hæðni leiðst og krossins nauð.
    Þó hafðir þú með hæstri dáð
    á himnaríki vald og ráð.

    Dauðanum mót mér djörfung ný
    daglega vex af orði því:
    Í dag, – þá líður ei langt um það,
    leidd verður önd í sælustað.

    Ó, Jesú, séu orðin þín
    andláts síðasta huggun mín.
    Sál minni verði þá sælan vís
    með sjálfum þér í Paradís.

    Amen