• Sálmur 39: Um ræningjans iðrun

    Annar ræninginn ræddi,
    sem refsað í það sinn var,
    herrann vorn Jesúm hæddi,
    hann gaf þetta andsvar:
    Ef þar von er til nokkur,
    að þú guðs sonur sért,
    hjálpa þér og svo okkur
    úr þessum kvölum bert. –

    En hinn þar upp á gegndi:
    Ekki hræðist þú guð.
    Hverjum straffs heiftin hegndi,
    hún var rétt forþénuð.
    Við megum vel meðtaka
    verkabetaling þann.
    En þessi er alls án saka. –
    Eftir það sagði hann:

    Hugsaðu til mín, herra,
    þá heldur þú ríkið þitt. –
    Ást drottins ei nam þverra,
    andsvar lét heyra sitt:
    Sannlega þér ég segi,
    sú er huggunin vís,
    þú skalt á þessum degi
    mér þjóna í Paradís. –

    Sjá hér fyrst straffið synda,
    sála mín, hryggilegt:
    forherðing hjartans blinda
    þó holdið kveljist frekt.
    Gefðu mér, Jesú góði,
    ég gegni vel hirting þín,
    með trú og táraflóði
    tjái þér brotin mín.

    Ræningjans iðran eina
    athugum líka með.
    Hann gjörði iðran hreina,
    hataði illverk skeð.
    Því sagði hann væri að vonum
    verðlaunin ranglætis,
    ávítun veitti honum,
    sem vildi ei gæta þess.

    Hann trúði, á himnaríki
    hefði vor Jesús ráð,
    þó syndugra sýndist líki;
    svo treysti upp á hans náð.
    Með blygðun og hrelldum huga
    herrann sín minnast bað,
    ljúflega lét sér duga,
    loforð ef fengi það.

    Hróp og háreysti gjörðu
    heiðnir og Júðar þar
    kringum krossinn á jörðu
    með kalls, brigsl og háðungar.
    Svaraði ei son guðs neinu,
    þó sjálfan það gilti hann,
    en syndugs manns orði einu
    án dvalar gegna vann.

    Sætt mér fyrir sjónum skartar,
    sæll Jesú, gæskan þín:
    Þér gekk heldur til hjarta
    hans neyð en sjálfs þíns pín.
    Sama hefur þú sinni
    við syndugar skepnur hér,
    því aldrei elsku þinni
    aftur, minn herra, fer.

    Illvirkinn hafði unnið
    ódáðaverkin stærst,
    götu glæpanna runnið
    greitt fram í dauðann næst.
    En Jesús ekki vildi
    á það neitt minnast nú;
    svo var mikil hans mildi;
    mín sál, það hugleið þú.

    Enginn örvænta skyldi,
    þó iðrast hafi seint.
    Söm er guðs sonar mildi,
    sé annars hjartað hreint,
    því hvorki við staði né stundir
    stíluð er drottins náð:
    Allt fram andlátið undir
    oss býðst hans hjálparráð.

    En þú skalt ekki treysta
    óvissri dauðastund,
    né guðs með glæpum freista,
    gjörandi þér í lund,
    náðartíminn sé næsta
    nógur höndum fyrir.
    Slíkt er hættusemd hæsta.
    Henni guð forði mér.

    Svo margt ég syndgað hefi,
    sorgin mig sturlar nú.
    Iðran guðs náð mér gefi,
    glóandi von og trú.
    Herra Jesú hjartkæri,
    hugsa þú til mín, þá
    dapur er dauðinn nærri,
    og drag mig kvölum frá.

    Amen