• Sálmur 32: Um það visnaða og græna tréð

    Greinir Jesús um græna tréð,
    getur hins visna einninn með.
    Við skulum, sál mín, skoða á ný
    skýran lærdóm í máli því.

    Frjóvgunareikin vökvuð, væn,
    vel blómguð stóð með laufin græn,
    þegar á jörðu sást til sanns
    son guðs íklæddur holdi manns.

    Lífsins ávöxtu ljúfa bar,
    læknaði Jesús sóttirnar,
    frá djöfli leysti og dauðans pín,
    daufum gaf heyrn, en blindum sýn.

    Af hverri grein draup hunang sætt:
    Hjálpræðiskenning fékk hann rætt.
    Öll hans umgengni ástúðleg
    angraðar sálir gladdi mjög.

    Guði var þekkt það græna tréð;
    glöddust himnar og jörðin með:
    Í hans fæðing það vitnast vann
    og við Jórdan þá skírðist hann.

    Réttlætis allan ávöxt bar:
    Inn til krossdauða hlýðinn var,
    saklausa lambið, son guðs einn,
    af synd og lýtum klár og hreinn.

    Þó mátti ei það eðla tré
    angurlaust vera á jörðunni.
    Guðs reiðistormur geisa vann.
    Gekk því refsingin yfir hann.

    Ef þú spyrð að hvað valda vann,
    vildi guð láta saklausan
    soninn komast í sorgir þær,
    sem honum þó var hjartakær,

    þú skalt vita að visnað tré
    var mannkyn allt á jarðríki,
    ofan að rótum uppþornað,
    ávöxt ranglætis færði það.

    Skaðsemdartréð, sem skemmdi jörð,
    skipaði drottins reiði hörð
    upphöggva svo það ekki þar
    akrinum sé til hindrunar.

    Vor Jesús mönnum vægðar bað.
    Vinnast mátti ei að fengist það,
    utan hann tæki upp á sig
    illvirkjagjöldin hryggilig.

    Herrann íklæddist holdi þá,
    hingað kom til vor jörðu á.
    Visnaðri eik gafst vökvan góð,
    þá varð úthellt hans dýra blóð.

    Saklaus því leið hann sorg og háð,
    syndugt mannkyn svo fengi náð.
    Hið græna tréð var hrakið og hrist.
    Hér af það visna blómgaðist.

    Guðs dýrðarsæti sitt hold í
    sonurinn mátti ei hefja því,
    fyrr en í heimi harða neyð
    hafði þolað og krossins deyð.

    Ó, hvað manns hold er heimsku fyllt,
    hræðilega úr máta villt,
    viljandi í löstum liggur það,
    leikur sér alls kyns glæpum að.

    Margur ætlar, fyrst ekki strax
    á fellur hefndin sama dags,
    drottinn þá aldrei muni meir
    minnast á það sem gjörðu þeir.

    Því góða trénu þyrmt var síst.
    Þurrum fausk mun þá bálið víst.
    Hafi faðirinn hirt sinn son,
    hefndar mun þrællinn eiga von.

    Ef nú guðs mildin ástsamlig
    óhegnda, sál mín, líður þig,
    hans þolinmæði haltu hér
    hjálpræðismeðal gefið þér.

    Visnað tré ég að vísu er.
    Vægðu, réttlætis herrann, mér.
    Gæskunnar eikin, græn og fín,
    geymdu mig undir skugga þín.

    Von er að mér sé mótkast víst.
    Mun ég umflýja dauðann síst.
    Holdið má ei fyrir utan kross
    eignast á himnum dýrðar hnoss.

    Tæpti ég mínum trúarstaf
    á tréð sem drýpur hunang af.
    Sjón hjartans öllu angri í
    upplýsist nær ég smakka á því.

    Þegar mér ganga þrautir nær,
    þér snú þú til mín, Jesú kær.
    Hjartað hressi og huga minn.
    himneskur náðarvökvi þinn.

    Amen