• Sálmur 31: Prédikun Kristí fyrir kvinnunum

    Fólkið, sem drottni fylgdi út,
    fylltist margt angri hörðu.
    Kvinnurnar grétu sárt með sút,
    sem hans kvöl aumka gjörðu.

    Sneri til þeirra son guðs sér,
    sagði þá herrann mætur:
    Grátið þér ekki yfir mér,
    ó, Jerúsalems dætur.

    Sona yðra og eigin eymd
    eflaust þér gráta megið.
    Nálgast sú tíð sem nú er geymd,
    nær þér harmandi segið:

    Sæl nú óbyrjan barnlaus er
    og brjóst þau ei sogin vóru.
    Hrynji yfir oss hálsarnir,
    hæðir og björgin stóru. –

    Ef gjört er svo því græna tré,
    geta hver til þess næði,
    hvað hið þornaða þá mun ske.
    Það frá ég Jesús ræði.

    Ó, hvað veraldar virðing er
    völt og svikul að reyna.
    Gæt þess, mín sál, og sjáðu hér
    sannprófað dæmið eina.

    Á pálmasunnudag sjálfur inn
    son guðs í borg nam ríða.
    Ástvinir hans það sama sinn
    sungu lof án alls kvíða.

    Fám dögum síðar sjálfur út
    særður með kross nam ganga.
    Það hlutu hans vinir að sjá með sút,
    sorg hjartans báru stranga.

    Hafi svo verið völt og flá
    veröldin herra sínum,
    hvers má sér vænta þrællinn þá?
    Þess gæt í huga þínum.

    Þeim sem hún býður blíðleik sinn,
    búin er sorgin mesta.
    Hirtu því aldrei huga þinn
    við hana, mín sál, að festa.

    Sannlega skyldugt segi eg mér
    sára þá kvöl að gráta,
    sem, drottinn Jesú, þungt að þér
    þrengdi í allan máta.

    Samt er þér ekki þént með því,
    þó ég þig aumka vildi.
    Eilífa hátign ertu í
    upphafinn, Jesú mildi.

    Þar má nú heldur aukast af
    angur samvisku minnar,
    orsök ég til og efni gaf
    allrar hörmungar þinnar.

    Erfiði hef ég aukið þér
    of þungt með syndum mínum.
    Glæpanna, sem ég gjörði hér,
    galstu á holdi þínu.

    Hræðist ég mér sé hulin geymd
    sú hefndar pínan stranga,
    því ég vann til að eilíf eymd
    yfir mig skyldi ganga.

    En þó gleð ég mig aftur við
    ávöxtinn kvala þinna.
    Þar af öðlast ég frelsi, frið
    og forlát synda minna.

    Angistin sár og sorgarlát,
    er sál helst þjáði mína,
    snýst í fögnuð og fegingrát
    fyrir þá miskunn þína.

    Bið ég nú, Jesú blíði, þig,
    sem bót mér gjörðir vinna:
    Lát öngvan gjalda eftir mig
    illsku né synda minna.

    Amen