• Sálmur 25: Um útleiðslu Kristí úr þinghúsinu

    Landsdómarinn þá leiddi
    lausnarann út með sér,
    Gyðingum andsvör greiddi
    glögglega og svo tér:
    Þér sjáið þennan hér.
    Sannlega yður ég segi,
    sök finnst með honum eigi,
    sem dauðadóms verð er. –

    Þá gekk Jesús út þanninn,
    þyrni og purpurann bar.
    Sagði: Sjáið hér manninn,
    sjálfur dómarinn þar.
    Gyðingar gáfu svar:
    Burt með hann, svo þeir segja.
    Sá skal á krossi deyja. –
    Ósk þeirra ein sú var.

    Orð og afsökun gilti
    engin í þessum stað;
    heiftin svo hugann fyllti,
    hjartað varð forblindað.
    Síðast þeir sögðu það:
    Ljóslega lífsstraffs krefði
    lögmálið, því hann hefði
    gjört sig guðs syni að.

    Rétt lög, sem rituð finnast,
    rangfærðu Júðar hér.
    Oss ber þar á að minnast,
    ill dæmi forðumst vér.
    Dómurinn drottins er.
    Hinn þó með heiftum klagi
    og hreinan sannleik aflagi,
    sjái valdsmenn að sér.

    Þá ég heyri, minn herra,
    hversu þú kvalinn vart,
    gjörvöll vill gleðin þverra;
    galstu mín næsta hart,
    því ég braut mikið og margt.
    En þá mér guðspjöll greina
    glöggt þitt sakleysið hreina,
    hjartað fær huggun snart.

    Athuga, sál mín, ættum
    útgöngu drottins hér,
    svo við rétt minnast mættum,
    hvað miskunn hans veitti þér.
    Hyggjum að, hann út ber
    þyrnikórónu þétta,
    þar með purpurann létta,
    blár og blóðugur er.

    Með blóðskuld og bölvan stranga,
    beiskum reyrð kvalahnút
    áttum við greitt að ganga
    frá guðs náð rekin út,
    hrakin í heljar sút,
    íklædd forsmánar flíkum,
    fráskúfuð drottni ríkum,
    nakin og niðurlút.

    Ó, synd, ó, syndin arga,
    hvað illt kemur af þér.
    Ó, hversu meinsemd marga
    má drottinn líða hér.
    Þitt gjald allt þetta er.
    Blindað hold þig ei þekkti,
    þegar þín flærð mig blekkti.
    Jesús miskunni mér.

    En með því út var leiddur
    alsærður lausnarinn,
    gjörðist mér vegur greiddur
    í guðs náðar ríki inn
    og eilíft líf annað sinn.
    Blóðskuld og bölvan mína
    burt tók guðs sonar pína.
    Dýrð sé þér, drottinn minn.

    Út geng ég ætíð síðan
    í trausti frelsarans
    undir blæ himins blíðan
    blessaður víst til sanns.
    Nú fyrir nafnið hans
    út borið lík mitt liðið
    leggst og hvílist í friði,
    sál fer til sæluranns.

    Dýrðar kórónu dýra
    drottinn mér gefur þá;
    réttlætis skrúðann skíra
    skal ég og líka fá
    upprisudeginum á,
    hæstum heiðri tilreiddur,
    af heilögum englum leiddur
    í sælu þeim sjálfum hjá.

    Svo munu guðs englar segja:
    Sjáið nú þennan mann,
    sem alls kyns eymd réð beygja
    áður í heimsins rann;
    oft var þá hrelldur hann.
    Fyrir blóð lambsins blíða
    búinn er nú að stríða
    og sælan sigur vann.

    Þá muntu, sál mín, svara,
    syngjandi fögrum tón:
    Lof sé mínum lausnara.
    Lamb guðs á hæsta trón
    sigur gaf sínum þjón.
    Um blessaðar himnahallir
    honum segjum vér allir
    heiður með sætum són.

    Son guðs ertu með sanni,
    sonur guðs, Jesú minn.
    Son guðs syndugum manni
    sonararf skenktir þinn,
    son guðs einn eingetinn.
    Syni guðs syngi glaður
    sérhver lifandi maður
    heiður í hvert eitt sinn.

    Amen