• Sálmur 23: Um Kristí húðstrýking

    Pílatus herrann hæsta
    húðstrýkja lætur þar.
    Nakinn við stólpann stærsta
    strengdur þá Jesús var.
    Stríðsmenn með svipum hröktu hann.
    Sál mín, hér sjá og skoða,
    hvað sonur guðs fyrir þig vann.

    Helgasta holdið fríða
    frá hvirfli iljum að
    drottni varð sárt að svíða,
    svall allt af benjum það.
    Hver hans líkama limur og æð
    af sárum sundur flakti,
    sú hirting mjög var skæð.

    Blessaður dreyrinn dundi
    drottins lífsæðum úr,
    sem regn það hraðast hrundi
    himins í dimmu skúr.
    Blánaði hold, en bólgnaði und.
    Sonur guðs sárt var kvalinn
    saklaus á þeirri stund.

    Ég var sem fjötrum færður
    fangelsi þungu í,
    á önd og samvisku særður,
    syndin mín olli því.
    Sú dauðleg sálar sóttin hér
    um hverja æð út sér dreifði,
    ekkert fannst heilt á mér.

    Svipan lögmálsins lamdi
    líf og sál heldur frekt,
    óttinn kvalanna kramdi,
    kominn var ég í sekt.
    Banvænlegt orðið mitt var mein,
    hjartað af hryggðum stundi,
    hvergi fékkst lækning nein.

    Sástu þá, Jesú sæli,
    sár mín óbærilig.
    Til lausnar þínum þræli
    því léstu binda þig;
    gekkst svo undir þá grimmdarkvöl,
    að ég kvittaður yrði
    við eilíft hryggðarböl.

    Sjúkdóm minn sjálfur barstu,
    svo varð ég heill. Með því
    hörmungum hlaðinn varstu,
    frá hryggðum er ég nú frí.
    Hegning þú leiðst svo hefði eg frið.
    Benjar þínar mér bættu,
    bót sú þar átti við.

    Hræðslan vill hjartað krenkja
    með hörðum sorgarsting,
    þegar ég gjöri að þenkja
    um þína húðstrýking.
    Aví, ég gaf þar efni til.
    Þú einn galst þrjósku minnar,
    þess nú ég iðrast vil.

    Því fell ég nú til fóta,
    frelsarinn Jesú, þér.
    Láttu mig nafns þíns njóta.
    Náð og vægð sýndu mér.
    Ég skal með hlýðni heiðra þig
    nú og um eilífð alla.
    Þá huggar þú, herra, mig.

    Gleðstu, mín sál, mig græddi
    guðs sonar heilagt blóð,
    þó synd og sorgin mæddi.
    Sjá, hér er lækning góð.
    Náð fyrir reiði nú er vís.
    Brot þrælsins herrann bætti,
    bar því síns föðurs hrís.

    Skoða þú skyldu þína
    skýrlega, sál mín, nú.
    Sonur guðs sig lét pína,
    svo læknuð yrðir þú.
    Heilbrigð þjóna þú honum rétt
    með trú, hollustu og hlýðni.
    Haf gát á þinni stétt.

    Þóknist honum að þjaka
    þitt hold örkumslum með,
    þýðlega því skalt taka.
    Þolinmótt hjartageð
    á sér drottinn og elskar best.
    Lausnara að líkjast þínum
    lof er þér allra mest.

    Ekkert má sóma síður:
    Síkátur þrællinn er,
    þá herrann hörmungar líður.
    Haf slíkt í minni þér.
    Hryggðarmynd hans er heiður þinn.
    Lát mig það læra og halda,
    ljúfasti Jesú minn. –

    Amen