• Sálmur 18: Sú fyrsta áklögun Gyðinga fyrir Pílató

    Árla, sem glöggt ég greina vann,
    með guðs son bundinn fara
    prestarnir, svo að píndist hann,
    til Pílatum landsdómara.
    Í þinghús inn
    það sama sinn
    sagt er þó enginn kæmi,
    svo ekki meir
    saurguðust þeir.
    Sjá hér hræsninnar dæmi.

    Inngang um húsdyr heiðingjans
    héldu þeir synd bannaða,
    saurgast á blóði saklauss manns
    sýndist þeim öngvan skaða.
    Heimsbörnum hér
    óvirðing er
    aumstöddum hjálp að veita,
    en guðs orðs forakt,
    ágirnd og prakt
    engin misgjörð skal heita.

    Pílatus, sem það formerkt fékk,
    fyrst ei þeim metnað sætti,
    án dvalar sjálfur út því gekk,
    embættisskyldu gætti.
    Sakargift þá
    vill fulla fá
    fram borna af þeirra munni.
    Dáryrði fljót
    drambsemi á mót
    dómarinn gefa kunni.

    Lát þér ei vera afmán að,
    ef þú vilt frómur heita,
    af Pílató ljóst að læra það,
    sem loflegt er eftir að breyta.
    Ranglætið hans,
    þess heiðna manns,
    halt þér minnkun tvefalda.
    Þeim miður fer
    en honum hér,
    hver vill þann kristinn halda?

    Álitið stórt og höfðingshátt
    hræðast skyldir þú ekki.
    Sannleiksins gæta ætíð átt,
    engin kjassmál þig blekki.
    Ærugirnd ljót,
    hofmóðug hót,
    hlýðir síst yfirmönnum.
    Dramblátum þar
    þú gef andsvar,
    þó byggt á rökum sönnum.

    Öldungar Júða allra fyrst
    upp báru sök þrefalda:
    Fólkinu þessi frásnýr víst,
    fyrirbýður að gjalda
    keisarans skatt, _
    það segjum vér satt,
    sjálfur vill kóngur heita
    og Kristur sá,
    sem koma á,
    kvittun og frið að veita. –

    Hér koma fram þau réttu rök
    ræðu og þanka minna:
    Þér, Jesú, gefin var þreföld sök,
    það kann ég glöggt að finna.
    Þrefaldleg sekt
    mig þjáði frekt,
    þar um ég klagast mætti.
    Þrefalda styggð
    og þunga lygð
    þú leiðst með sögðum hætti.

    Frásnúið guði allt mitt er
    eðli og líf fáneyta.
    Öðrum því gef ég oft af mér
    ill dæmi, svo að breyta.
    En hér á mót
    með elsku hót
    öll guðsbörn rétt því trúa,
    frá bölvan, deyð,
    djöfli og neyð
    drottinn réð lýðnum snúa.

    Guði átti eg að greiða frí
    gjald, hlýðni og þakkarskyldur.
    Ranglega hef ég haldið því,
    höndlað sem þræll ógildur.
    Auðsveipnin þín
    fyrir öllum skín,
    ástsemdar herrann kæri.
    Þú bauðst: gefið,
    gafst sjálfur með,
    hvað guðs og keisarans væri.

    Sannlega hef ég hrokað mér
    hærra en vera skyldi,
    boð og skipun míns herra hér
    haldið í minnsta gildi.
    Kóngdóm í heim
    og heiðri þeim
    hafnaðir þú og flýðir.
    Hátignin þín
    á himnum skín.
    Hún mun birtast um síðir.

    Rægður varstu fyrir ranga sök,
    réttláti Jesú mildi,
    upp á það öll mín illskurök
    afplánuð verða skyldi.
    Áklögun sú
    sem þoldir þú,
    þess bið ég, herrann frómi,
    sé mitt forsvar,
    þá finnst ég þar
    fyrir þeim stranga dómi.

    Amen