• Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí

    Guðhræddum lesara: Heilsun

    Það verður dýrast, sem lengi hefur geymt verið og gefur tvöfaldan ávöxt í hentugan tíma fram borið, sagði Markús Varro. Umþeking guðrækileg Herrans Jesú pínu og dauða er vissulega dýrmæt og hver sig langvaranlega gefur til þeirrar umþenkingar og ber jafnan Jesú Kristí píslar minning í sínu hjarta, sá geymir hinn dýrasta hlut. Og með því ég hefi hennar langvaranlega íhugun mér í brjósti geymt, eftir þeirri náð, sem minn góði Guð hefur mér að náð sinni gefið, þá ber ég hana nú loksins fram opinberlega í þessum sálmum fyrir öll upp á Jesúm lítandi augu og Jesúm elskandi hjörtu, svo mikið sem ég kann og ég get í þau fáorðu sálmavers inn bundið. Þeim, sem Herrans Jesú pínu jafnan elska, mun það ekki þykja í ótímagjört, sérdeilis nær þeir rannsaka þessa yfirstandandi eymdanna öld, á hverri réttir Jesú pínu elskendur meir sorga en gleðjast og sofandi hirðuleysingjar (sem of margir finnast, því verr) meir fagna en sorga. Hver ávöxtur hér af færist befala ég Guði. En þess er ég af guðhræddum mönnum óskandi, að eigi úr lagi færi né mínum orðum breyti, hver þeir sjái Drottins og kristilegri meiningi eigi á móti. Þeir, sem betur kunna, munu betur gjöra. Herrann Jesú elski þá alla, sem hans heilögu kvöl og pínu guðrækilega elska og iðka hennar minning. Vale pie lector.

    Hallgrímur Pétursson p.